Vatnsþurrð og fiskadauði í Grenlæk í Landbroti

Vatnalíf hefur orðið illa úti vegna vatnsþurrðarinnar, hafa þörungar, smádýr og fiskar drepist á öll… Vatnalíf hefur orðið illa úti vegna vatnsþurrðarinnar, hafa þörungar, smádýr og fiskar drepist á öllu því svæði sem þornaði.

Vatnsþurrð og fiskadauði í Grenlæk í Landbroti

Vatnsþurrð er nú í Grenlæk í Landbroti, einni af mestu sjóbirtingveiðiám landsins. Við vettvangsskoðun 2. maí sást að efstu 11 km Grenlækjar á svæðinu ofan við Stórafoss eru þurrir, en þar eru mikilvægar hrygningar- og uppeldisstöðvar fyrir sjóbirting. Mikið sást af dauðum sjóbirtingum, flestir voru þeir yfir 50 cm langir og að líkindum fiskar sem hrygndu á sl. hausti. Þegar er ljóst að vatnalíf hefur orðið illa úti vegna vatnsþurrðarinnar, hafa þörungar, smádýr og fiskar drepist á öllu því svæði sem þornaði. Sérstaklega hefur sjóbirtingsstofninn orðið illa úti, þar sem nær öll seiði og hrogn sem nú eru í mölinni á svæðinu hafa drepist og þar með 2–3 seiðaárgangar. Farvegur lækjarins var að mestu skraufaþurr og sást lítið sem ekkert vatn utan einstaka þornandi smápolla. Engan lifandi fisk var að sjá á svæðinu.

Endurtekin vatnsþurrð í Grenlæk

Grenlækur er frjósamur lindarlækur með ríkulegu lífríki. Þar er einn stærsti sjóbirtingsstofn landsins og þar eru mjög verðmæt veiðihlunnindi. Vatnsbúskapur Grenlækjar er háður því að nægilegt vatn flæði úr Skaftá og út á Eldhraunið en ef svo er ekki þá á rennsli Grenlækjar til með að þrjóta. Rennslinu út á Eldhraun er stýrt og er það takmarkað. Á því svæði sem nú er á þurru eru ein helstu hrygningar- og uppeldissvæði sjóbirtings í læknum. Vatnsþurrð hefur endurtekið orðið í Grenlæk síðast árin 2016 og 2021. Munur frá fyrri atburðum er að nú sást mun meira af dauðum fiski en áður. Svo virðist sem sjóbirtingurinn hafi ekki náð að ganga niður af svæðinu eftir hrygningu sl. haust líkt og áður. Hafrannsóknastofnun stundar vöktunarrannsóknir á fiski og öðru lífríki í Grenlæk og er þar m.a. fiskteljari. Fisktalning mun væntanlega svara þeirri spurningu hversu margir fiskar koma til með að skila sér úr hafi í sumar og haust og þar með hversu alvarlegt ástand stofnsins er.

Sá fiskidauði sem nú hefur orðið er í 4 skiptið sem slíkt gerist. Finna þarf leiðir til frambúðar til að tryggja háa grunnvatnsstöðu í hraunum á svæðinu svo vatnsrennsli til lindarvatna verði nægt til að viðhalda vatnsrennslinu og því ríkulega lífríki og fiskgengd sem þar er að finna.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?